Allsendis óvíst er hvort evrusamstarfið komist óskaddað í gegnum skuldakreppuna. Þetta segir öldungurinn Warren Buffett, einn af ríkustu mönnum heims.

Fjárfestirinn sagði í samtali við viðskiptasjónvarpsstöðina CNBC í dag skuldakreppuna sýna að innbyggður galli sé á evrusamstarfinu og verði ráðamenn evruríkjanna að taka á öllu sínu eigi að takast að halda evrunni á lífi. Þeir verði að hætta að tala látlaust um vandann, nú verði að láta verkin tala.

Buffett sagði ekki hægt að líkja skuldavanda evruríkjanna saman við þeim vanda sem Bandaríkin standi nú frammi fyrir.

Buffett segir mestu muna um það að evruríkin geti ekki lengur gefið út ríkisskuldabréf í eigin gjaldmiðli. Það geti Bandaríkin gert.

Sjónvarpsstöðin segir Buffett í innkaupahugleiðingum þessa dagana og hugnist honum mjög verð á hlutabréfum í Evrópu. Helstu hlutabréfavísitölur innan evruríkjanna hafa lækkað mikið upp á síðkastið og hafa nú ekki verið lægri í einn og hálfan mánuð.