Seðlabanki Kanada kom mörkuðum á óvart í gær með því að lækka stýrivexti um 0,25 prósentustig niður í 4,25% þvert á væntingar þess efnis að vöxtum yrði haldið óbreyttum, samkvæmt því sem segir í Morgunkorni Glitnis. Kanadíski dollarinn lækkaði við tíðindin og náði 11 vikna lágmarki gagnvart Bandaríkjadollar.

Engar óvæntar uppákomur urðu hinsvegar hinum megin á hnettinum í Ástralíu þar sem bankastjórn Seðlabanka Ástralíu kom einnig saman á vaxtaákvarðanafundi í gær. Í Ástralíu eru vextir eftir sem áður 6,75% eins og búist var við en bankinn sagði hagvaxtarhorfur fara versnandi. Ástralski dollarinn lækkaði í kjölfar tilkynningarinnar gagnvart flestum myntum. Mikið er um vaxtaákvarðanir í vikunni en seinna í dag tilkynnir bankastjórn seðlabanka Nýja Sjálands um vaxtaákvörðun sína. Búist er við að vextir þar í landi verði óbreyttir í 8,25%, segir í Morgunkorninu.