Pólska farsímafyrirtækið P4 hyggst setja á laggirnar þjónustu fyrir þriðju kynslóð farsíma á seinni hluta árs, segir í viðtali Dow Jones við framkvæmdarstjóra P4, Chris Bannister.

P4 er í eigu fjarskiptafyrirtækisins Netia Holdings og íslenska fjárfestingarfélagsins Novator, sem er í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar. P4 er einn af fjórum rétthöfum að notkun UMTS (Universal Mobile Telecommunications System) fjarskiptanetsins í Póllandi.

"Við viljum að rekstur okkar miðist að nýjum möguleikum í fjarskiptum; hreyfimyndum, fjölmiðlun, internet-aðgengi og skemmtiefni, en við viljum einnig gera eitthvað nýtt og marka okkur stöðu á fjarskiptamarkaðnum," sagði Bannister.

Þó á enn eftir að fá 400 leyfi, en Bannister vonast til að þau fáist og að skriffinnsku verði lokið í september.

P4 hyggst leggja um 75 milljarða króna í UMTS fjarskiptanetið, en það hefur ekki verið notað mikið í Póllandi fram að þessu. P4 stefnir á að ná á bilinu 17% til 25% markaðshlutdeild innan tíu ára, en það eru á bilinu 34 til 36 milljónir farsímanotendur í Póllandi.

P4 er fjórða verkefni Novators og sprettur nafnið þaðan (Project 4), því á eftir að finna nýtt nafn á fyrirtækið.