„Aðild [að Evrópusambandinu] væri tilræði við sjávarútveginn, landbúnaðinn og fullveldi þjóðarinnar," sagði Páll Pétursson, fyrrverandi ráðherra Framsóknarflokksins, í umræðum um Evrópumál á flokksþingi framsóknarmanna sem nú fer fram í Valsheimilinu í Reykjavík.

Nærri eitt þúsund manns taka þátt í þinginu.

Fyrir þinginu liggur að taka afstöðu til aðildar að Evrópusambandinu og standa nú yfir umræður um málið.

Í drögum að ályktun um ESB er lagt til að sótt verði um aðild sambandinu á grundvelli samningsumboðs frá Alþingi „sem tryggi hagsmuni almennings og atvinnulífs og þá sérstaklega sjávarútvegs og landbúnaðar," eins og það er orðað í ályktuninni.

Skoðanir eru mjög skiptar um málið og er ekki víst að það verði útkljáð í dag. Vera kann að atkvæðagreiðsla fari ekki fram fyrr en á morgun, laugardag.

Páll Pétursson, fyrrverandi ráðherra, er einn þeirra sem lagst hefur gegn ályktuninni.

Eignarhald á auðlindum verði tryggt

Páll Magnússon, sem býður sig fram til formennsku í flokknum, sagði í ræðu sinni rétt í þessu að ekki væri hægt að komast að því hvort hagsmunum Íslendinga væri betur borgið innan eða utan ESB nema að undangengnum aðildarviðræðum.

Hann kvaðst taka undir með Valgerði Sverrisdóttur, fráfarandi formanni, að ekki ætti að bera aðildarsamning undir atkvæði þjóðarinnar ef ekki verði tryggt í samningnum að eignarhald á auðlindum þjóðarinnar verði í höndum Íslendinga.

Páll lagði því til að ákvæði þess efns yrði bætt við ályktun framsóknarmanna um ESB.