„Það að synja refsifanga um bílstjóra og bíl til að aka í sex tíma á hverjum degi í fimm vikur er ekki mannréttindabrot, heldur fullkomlega eðlileg vinnubrögð,“ segir Páll Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar, í samtali við fréttastofu RÚV .

Gestur Jónsson, lögmaður Sigurðar Einarssonar, hélt því fram í málflutningi í markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings að fangelsisyfirvöld hefðu brotið mannréttindi á skjólstæðingi sínum. Sigurði hefði ekki verið gert kleift að fylgjast með réttarhöldum yfir sér nema hann væri fluttur til afplánunar í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg.

„Það að einhverjum lögmanni hins vegar detti í hug að tilteknir fangar geti borgað fyrir umframréttindi er í besta falli dómgreindarskortur og til marks um þekkingarleysi á því hvernig okkar fullnustukerfi, og reyndar hjá öðrum siðmenntuðum þjóðum virkar,“ segir Páll Winkel.

Bent hefur verið á að aðstæður í Hegningarhúsinu séu afar slæmar og mun verri en í fangelsinu á Kvíabryggju.  „Það að gista þar í nokkrar nætur eða nokkrar vikur hefur ekki verið talið mannréttindabrot hingað til. Það er hins vegar mannréttindabrot að hafa menn þar í marga mánuði eða mörg ár.“