*

laugardagur, 27. nóvember 2021
Innlent 23. janúar 2018 09:38

PCC fundar með Húsvíkingum

Kísilver PCC á Bakka við Húsavík undirbýr gangsetningu með því að boða til fundar með íbúum.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Stjórnendur kísilsvers PCC BakkiSilicon hf. boða til fundar með íbúum Húsavíkur og nágrennis fimmtudaginn, 25. janúar kl. 17 á Fosshóteli á Húsavík segir í fréttatilkynningu. Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hefur Kísilver United Silicon í Helguvík í Reykjanesbæ verið sett í gjaldþrotaskipti og stefnt er að því að nýtt félag yfirtaki eignirnar og komi rekstrinum í gang.

Á fundinum verður íbúum kynnt gangsetning ofna verksmiðjunnar á Bakka sem hefst með gangsetningu fyrri ofnsins í febrúar og í apríl á seinni ofninum. Farið verður yfir helstu atriði sem varða gangsetningu ofnanna og hvers íbúar geti helst vænst á meðan á ræsingu ofnanna stendur. Ráðherrum, þingmönnum kjördæmisins og öðrum hagsmunaaðilum hefur verið gert viðvart og boðið að sækja fundinn. 

Gangsetningin verður áskorun fyrir starfsfólk PCC BakkiSilicon en því til halds og trausts verður hópur erlendra sérfræðinga sem hafa mikla reynslu af þessu ferli og rekstri kísilvera. Það eru meginmarkmið starfsmanna fyrirtækisins að enginn slasist meðan á verkefnunum stendur, að umhverfisáhrif verði sem minnst og að nágrannar verði ekki fyrir óþægindum. 

Þá er þess einnig vænst að þegar fullt afl verður komið á ofnana, um það bil viku eftir að hvor ofn um sig verður ræstur, verði íbúar í nágrenninu lítið varir við daglega starfsemi kísilversins.

Stikkorð: Húsavík PCC kísilver gangsetning