Arnór Sighvatsson, aðstoðarseðlabankastjóri segir að aflétting hafta muni ekki hafa í för með sér óstöðugleika á gjaldeyrismarkaði. Það sé markmið Seðlabankans og líkur á hreyfingu gengis verði samhverfar, það er að jafn miklar líkur verði á styrkingu krónunnar og að gengið muni veikjast.

"Þær aðgerðir sem við munum fyrst grípa til munu ekki hafa nein áhrif á gengi krónunnar og ef eitthvað er þá til styrkingar," sagði Arnór á blaðamannafundi í Seðlabankanum í morgun.

Áætlun um afnám gjaldeyrishafta verður birt í lok febrúar, að sögn Más Guðmundssonar. Þetta kom fram í svari hans við fyrirspurn á blaðamannafundinum. Hann segir vaxtalækkun bankans ekki vera harkaleg heldur frekar mjúk. „Við höfum skipt úr dúr yfir í moll,“ sagði Már.