Greiningardeild KB banka telur að peningastjórnun á Íslandi hafi beðið hnekki. Verðbólga hefur verið yfir þolmörkum verðbólgumarkmiðs Seðlabankans í 22 mánuði af þeim 60 sem bankinn hefur verið á verðbólgumarkmiði og nú er útlit fyrir að verulegt verðbólguskot verði öðru sinni frá því að bankinn fékk sjálfstæði.

Að mati Greiningardeildar stafar verðbólguskot nú að mestu af fyrri mistökum bankans þar sem Seðlabankinn hefur verið að berjast við hækkun eignaverðs. Húsnæðisliðurinn er um fjórðungur í vísitölu neysluverðs, en undanþeginn að mestu annars staðar. Sé miðað við samræmda vísitölu neysluverð á EES svæðinu, var verðbólgan hér lengi vel undir markmiði bankans og vel undir meðaltali EES segir í Þróun og horfum KB banka.