Persónuverndar hefur ákveðið að leggjast gegn lengdum varðveislutíma gagna í lyfjagrunni landlæknis, en í nýlegu frumvarpi til laga um breytingar á lyfjalögum var lagt til að varðveislutíma gagna í grunninum yrði lengdur úr þremur árum í 30 ár.

Persónuvernd bendir á að áður en tekin verði ákvörðun um lengingu varðveislutíma þurfi að gera vandaða þarfagreiningu og m.a. skoða hvort mögulegt sé að persónuupplýsingum í grunninum verði skipt niður í hólf, þannig að ríkari aðgangstakmarkanir verði að eldri upplýsingum og aðgangur að þeim jafnvel háður sérstakri heimild.

Engin breyting orðið

Persónuvernd segir í athugasemdum með fyrirliggjandi frumvarpsdrögum séu engar skýringar á því hvort og þá hvaða breytingar hafa orðið, frá því að gerð var ítarleg þarfagreining árið 2003 á vegum Landlæknisembættisins, Lyfjastofnunar og Tryggingastofnunar ríkisins. Sú þarfagreining leiddi í ljós að ekki væri þörf á að varðveita persónugreinanlegar upplýsingar nema í 2 ár aftur í tímann og segir Persónuvernd að ekkert hafi fram komið sem sýni fram á að þörf sé að lengja tímann úr þremur árum í þrjátíu.

Persónuvernd bendir á í úrskurði sínum að í lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga komi fram sú grundvallarregla að persónuupplýsingar skuli fengnar í skýrum, yfirlýstum og málefnalegum tilgangi. Þá skuli þess gætt við meðferð persónuupplýsinga að þær séu nægilegar, viðeigandi og ekki umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilgang vinnslunnar.

„Þessar meginreglur fela það í sér að ekki er heimilt að vinna með meira af persónuupplýsingum en nauðsynlegt er til að ná yfirlýstum tilgangi vinnslu. Þau frumvarpsdrög sem nú liggja fyrir fjalla um vinnslu landlæknis á persónuupplýsingum, en þegar stjórnvald vinnur með persónuupplýsingar þarf hinn yfirlýsti tilgangur vinnslu að vera í samræmi við það hlutverk sem viðkomandi stjórnvald fer með að lögum, er þetta sérstaklega mikilvægt þegar um er að ræða mjög viðkvæmar persónuupplýsingar á borð við lyfjaupplýsingar,” segir í umsögn stofnunarinnar um frumvarpsdrögin.