Í gær samþykkti öldungadeild bandaríska þingsins að afturkalla persónuverndarreglur sem settar voru undir stjórn Obama í október síðastliðnum af FCC, sem er stofnun sem sér um fjarskiptamál í landinu.

Búist er við að fulltrúadeildin samþykki breytinguna á næstu vikum, en þó þetta sé ekki í fyrsta sinn sem þingmenn Repúblikana afturkalla reglugerðir frá tímum Obama er þetta í fyrsta sinn sem öldungadeildin ríður á vaðið með að svo verði gert.

Þurfa nú að fá leyfi frá notendum

Reglurnar tryggja að netþjónustufyrirtæki eins og AT&T og Verizon verði að fá leyfi notenda sinna áður en þeir nota persónuupplýsingar þeirra í auglýsingaskyni.

Gagnrýnendur reglnanna segja þær of stífar og setji veitendum netþjónustu strangari kröfur en vefsíður eins og Facebook og Google njóta, sem einnig safna slíkum upplýsingum.

Ríkisstofnun sem taki sér of mikið vald

Neytendahópar og aðrir hafa gagnrýnt afnámið meðan fyrirtæki í tæknigeiranum hafa fagnað aðgerðunum.

Öldungadeildarþingmaðurinn Jeff Flake frá Arizona sem lagði frumvarpið fram sagði að reglur FCC væri dæmi um ríkisstofnun sem væri að taka sér of mikið vald.

„Með því að samþykkja tillöguna erum við að senda sterk skilaboð til alríkisstofnana að þær geti ekki einhliða takmarkað stjórnarskrárbundin réttindi og vænta þess að fá að komast upp með það,“ sagði þessi þingmaður Repúblikanaflokksins.

Upplýsingar seldar hæstbjóðanda

Í yfirlýsingu andstæðinga frumvarpsins sagði hins vegar:

„Með atkvæðagreiðslunni í dag, hafa öldungardeildarþingmenn Repúblikana gert það auðveldara að nota, deila og selja til hæstbjóðanda, viðkvæmar upplýsingar um heilsu, fjármál og fjölskylduhagi Bandaríkjamanna án leyfis.“