Hægt hefði verið að komast að samkomulagi við kröfuhafa Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis (SPRON) og koma í veg fyrir að sparisjóðurinn hefði farið í þrot. Þetta fullyrðir Pétur Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Hann sagði í sérstökum umræðum um stöðu sparisjóðanna á Alþingi í dag það hafa verið mikil mistök að láta SPRON fara í þrot. Ekki hafi verið samið við kröfuhafa SPRON enda enginn vilji til þess hjá ráðamönnum.

Pétur sagði að nú sé mikilvægt að skapa aftur traust á sparisjóðunum svo hægt verði að selja stofnfé þeirra. Hann sagði sparisjóð ekki sparisjóð á meðan ríkið eigi stóran hlut í honum.

„Ég vona að það takist að skapa þetta traust á einhverju árabili,“ sagði hann.

Er eftirspurn eftir sparisjóði?

Björn Valur Gíslason, þingmaður VG og formaður fjárlaganefndar Alþingis, vísaði fullyrðingum Péturs á bug og sagði fall SPRON honum sjálfum að kenna.

„Sparisjóðirnir féllu því þeir fjarlægðust hlutverk sitt. Það var ástæðan fyrir því að sparisjóðirnir lentu í fanginu á ríkinu,“ sagði hann og bætti við að nú þurfi að kanna hvort bæði sé pláss fyrir sparisjóðina og eftirspurn eftir þeim.