Bandaríski lyfjarisinn Pfizer gæti farið á eftir þýska samheitalyfjaframleiðandanum Strada ef félaginu mistekst að ná í þýska fyrirtækið Ratiopharm. Þessar vangaveltur birtust hjá Reuters í dag en óhætt er að segja að lyfjamarkaðurinn logi af vangaveltum yfir því hverjum tekst að ná í Ratiopharm. Enn er Actavis talið vera líklegt til þess samkvæmt fréttaskeytum. Forráðamenn félagsins eru áfram þöglir sem gröfin um málið.

Samkvæmt Reuters hyggst Pfizer gera lokatilboð í Ratiopharm í dag en ennþá eru þeir að keppa við ísraelska risann Tevia og Acatavis um hituna. En er gert ráð fyrir að tilboðsgjafinn verði að greiða sem svarar 3 milljörðum evra fyrir Ratiopharm en talið er að hægt sé að fá Strada fyrir 2,7 milljarða evra. Sagt er að Jeff Kindler, forstjóri Pfizer, vilji ólmur og uppvægur ná fótfestu á samheitalyfjamarkaðinum. Hann telji að besta leiðin sé að kaupa stórt félag sem er með víðfeman rekstur fremur en að kaupa nokkur smærri félög. Þrátt fyrir að þrír milljarðar evra séu háar upphæðir þá munar risann Pfizer ekki um það. Er jafnvel haldið fram að Strada henti Pfizer betur en Ratiopharm.

Tveir þriðju hlutar tekna Strada koma af sölu utan Þýskalands og þar munar mikið um markaði í Austur-Evrópu og Rússlandi. Ratiopharm er hins vegar með ríflega helming sölu sinnar í Þýskalandi auk þess sem það selur talsvert til Kanada og vestur-Evrópu.