Plastiðjan á Selfossi lauk nýverið við samning við Glacial Water varðandi umbúðir fyrir Latabæjarvatn til útflutnings. Fyrsta árið er gert ráð fyrir 18,5 milljónum eintaka.

„Þetta er stærsti sölusamningur sem við höfum gert,“ segir Hans A. Hjartarson, fjármálastjóri Plastiðjunnar, í samtali við Viðskiptablaðið.

Hann segir jafnframt að samningurinn sé jákvætt skref fyrir íslenskt atvinnulíf þar sem vatnið er að langmestum hluta til útflutnings og sölu erlendis.

Þá hefur Plastiðjan einnig gengið frá samningi við Lýsi hf. varðandi framleiðslu á plastflöskum til átöppunar á lýsi og eru þær eingöngu til útflutnings. Sú framleiðsla fór áður fram erlendis.