Flugfélagið Play hefur hafið miðasölu á áætlunarferðum til Aþenu (Athens International Airport), höfuðborgar Grikklands. Fyrsta ferðin verður farin 2. júní 2023 en flogið verður tvisvar í viku, á mánudögum og föstudögum, út október 2023. Þetta verður í fyrsta sinn sem flugfélag er með beint áætlunarflug á milli Íslands og Aþenu.

Í tilkynningu frá Play er bent á að frá flugvellinum í Aþenu sé hægt að fljúga til og frá Santorini, Mykonos, Krítar og Ródos.

Aþena er nýjasta viðbótin við stækkandi leiðakerfi Play en fyrir skemmstu hófst miðasala á ferðum til Porto í Portúgal. Flugfélagið býður nú áætlunarferðir til 27 áfangastaða beggja vegna Atlantshafsins.

„Ég er virkilega spenntur fyrir þessum nýja áfangastað og trúi því að margir séu sammála mér. Nú geta Íslendingar farið í beint flug til Aþenu í fyrsta sinn og þá Aþenubúar sömuleiðis til Íslands. Þá er ég viss um að það séu stór tækifæri í tengifluginu og að Bandaríkjamenn muni nýta sér þessa nýju leið Play yfir Atlantshafið til Aþenu og öfugt,” segir Birgir Jónsson, forstjóri Play.