Post Danmark og 365 Media Scandinavia, dótturfélag Dagsbrúnar, munu koma á fót sameiginlegu dreifingarfyrirtæki í Danmörku, segir í fréttatilkynningu.

Fyrsta verkefni fyrirtækisins verður að annast dreifingu Nyhedsavisen á landsvísu, með sérstakri áherslu á Kaupmannahafnarsvæðið, Óðinsvé og Árósa.

Aðrir viðskiptavinir munu einnig eiga kost á að nýta sér dreifingarfyrirtækið til dreifingar ómerktra póstsendinga sem verður þá dreift ásamt blaðinu.

?Við munum einfaldlega koma á fót því dreifingarkerfi sem skortur hefur verið á í Danmörku fyrir dreifingu ómerktra sendinga og munum tryggja að þeim verði komið til viðtakenda fyrir klukkan 7 á hverjum morgni sex daga vikunnar. Við hlökkum til að nýta okkur reynslu okkar á nýjum markaði. Þá munum við tryggja að Danir fá hið nýja blað Nyhedsavisen inn um póstlúguna," segir Helge Israelsen, forstjóri Post Danmark.

Fyrirtækið, sem ekki hefur hlotið nafn, mun verða byggt upp frá grunni og nýta sér reynslu beggja aðila sem að því koma. 365 Media Scandinavia mun eiga 51 prósent hluta í félaginu en Post Danmark 49 prósent.

?Við lítum á stofnun þessa fyrirtækið sem lokaáfanga í undirbúningi okkar. Við vitum hversu miklivægt það er að engum hefur tekist að ná utan um dreifingarmálin. Þess vegna er það augljóslega mikið tækifæri að komast í samstarf við fyrirtæki sem þekkir dreifingarmál í Danmörku hvað best," segir Svenn Dam, forstjóri 365 Media Scandinavia, útgefanda Nyhedsavisen.