Jakob Sigurðsson, forstjóri Promens, gangsetti nýja verksmiðju fyrirtækisins við hátíðlega athöfn í Taicang í Kína í lok nóvember. Opnunarathöfnin markar upphaf framleiðslu Promens í Kína auk þess sem drög að frekari fjárfestingum Promens á svæðinu voru kynntar en á sama tíma undirritaði Hermann Þórisson, stjórnarformaður Promens, og Wang Hong Xing, formaður kommúnistaflokksins í Chengxiang viljayfirlýsingu um stækkun verksmiðjunnar og auknin umsvif Promens í Taicang.

Í opnunarávarpi sínu lagði Jakob áherslu á að verksmiðja Promens í Taicang marki stórt skref í framtíðaráætlunum félagsins við að styrkja stöðu sína á ört vaxandi mörkuðum. „Framleiðslueining Promens í Taicang skapar góðan grundvöll fyrir bætta þjónustu við bæði kínverska og alþjóðlega viðskiptavini fyrirtækisins, þar sem við vinnum í nánu samstarfi við viðskiptavini allt frá frumhugmynd til framleiðslu.“ sagði hann.

Fram kemur í tilkynningu frá Promens að gangsetning verksmiðjunnar í Taicang er fyrsti áfangi af nokkrum sem fyrirhugaðir eru. Fyrsti áfanginn byggist á hverfisteyptum vörum, svo sem einangruðum kerum og mun til að byrja með fyrst og fremst þjóna fyrirtækjum í matvælaiðnaði. Snemma á næsta ári hefst svo framleiðsla á vörum fyrir bílaiðnað. Hverfisteypa hefur verið þungamiðjan í framleiðslu Promens síðan fyrirtækið var stofnað á Dalvík árið 1984 og sama tækni hefur verið grundvöllur starfsemi fyrirtækisins í Asíu hingað til.

© Aðsend mynd (AÐSEND)