Miklar sveiflur hafa verið á verðmati á Promens, sem er langstærsta eign Atorku Group, en miklu skiptir fyrir félagið hvernig þeirri eign reiðir af. Talið er að verðmæti Promens nemi um 99% af verðmæti allra óskráðra eigna félagsins. Á síðasta vetri var Promens metið verðlaust af Lundúnaútibúi KPMG. Samkvæmt nýrri aðferð við verðmat á Promens vegna nauðasamningsfrumvarps, sem hefur verið lagt fyrir héraðsdóm, verður hlutur Atorku í Promens metinn á 61,5 milljónir evra eða 11,2 milljarða íslenskra króna.

Tvö erlend ráðgjafafyrirtæki unnu nýverið verðmat á eignarhlut Atorku í Promens.  Í greinargerð með nauðasamningsfrumvarpi er gerð nákvæm grein fyrir forsendum og aðferðafræði að baki verðmötunum. Sú tillaga er lögð fram að við nauðasamninginn verði mögulegt verðmæti Promens metið út frá meðaltali á varfærnum verðmötum ráðgjafafyrirtækjanna tveggja.

Talsverð fjármögnunarþörf er líkleg hjá Promens sem ólíklegt er að Atorka geti aðstoðað við að óbreyttu.

Framtíðarvirði Promens hefur ráðandi áhrif á endurheimtuhlutfall kröfuhafa Atorku. Í samráði við fulltrúa stærstu kröfuhafa var ákveðið að færa varúðarfærslu á Promens að fjárhæð 9,9 milljarða króna sem leiðir til þess að bókfært virði Promens í nauðasamningnum er áætlað 11,2 milljarðar sem jafngildir 61,5 milljónum evra.