Gengi sterlingspunds hélt áfram að lækka í gær og hefur nú aldrei verið lægra gagnvart evrunni, eftir að nýir hagvísar sýndu frekari þrengingar á breskum húsnæðismarkaði og minnkandi smásölu, jafnframt því að verðbólga mældist lægri en spár gerðu ráð fyrir, sem jók á væntingar um stýrivaxtalækkanir Englandsbanka.

Pundið lækkaði um allt að 0,8% og stóð lægst í 0,806 pensum gagnvart evrunni, lægsta gildi frá því að evran var kynnt til sögunnar árið 1999. Gengi evrunnar hefur styrkst um 19% gagnvart sterlingspundi á undanförnum 9 mánuðum. Verðbólga hækkaði um 0,4% í marsmánuði og mældist tólf mánaða verðbólga því 2,5%, sem var undir meðalspá greinenda.

Sérfræðingar segja að verðbólgutölurnar gefi til kynna að mörg smásölufyrirtæki telji sig knúin til að halda verðlagshækkunum í skefjum, í því augnamiði að koma til móts við neytendur.

_____________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .