Vladimir Putin, forsætisráðherra Rússlands, fagnar ákvörðun General Mortors um að selja 55% hlut í Opel til kanadíska íhlutafyrirtækisins Magna og rússneska ríkisbankans Sberbank. Associated Press vitnar í orð sem Putin lét falla í Moskvu þar sem hann sagði m.a.: „Ég vona að þetta sé eitt þeirra skrefa sem muni leiða okkur inn í raunverulega samþættingu við evrópska efnahagskerfið.”

GM hefur margsinnis hikað við að selja Opel til Magna og Sberbank vegna ótta við að tækni frá Opel félli í hendur rússneska bílaframleiðandans GAZ (framleiðanda gamla rússajeppans). Sberbank hefur einmitt lýst GAZ sem tæknilegum viðskiptafélaga í málinu.

Það er þó ekkert nýtt að tækni frá GM eða Opel sé nýtt í rússneskum bílaiðnaði. Þannig hefur NIVA eða Lada byggt meira og minna á tækni frá Opel undanfarin ár, þar á meðal vélbúnaði. Þar á bæ hófu menn t.d. framleiðslu á nýjum Lada jeppa fyrir nokkrum árum undir merki Chevrolet og var hann með Ecotec vél frá Opel.