Vladimir Putin, forsætisráðherra Rússlands, hefur fyrirskipað að dregið verði úr því gasi sem fer til Evrópusambandsins í gegnum Úkraínu. Hann sakar Úkraínu um að stela af birgðum á leið til Evrópusambandsins og gasdeilan á milli landanna tveggja fer harðnandi, að sögn WSJ.

ESB hefur sent sendinefnd til beggja deilenda því að þótt gas hafi borist tiltölulega snurðulaust til ESB enn sem komið er hefur sambandið vaxandi áhyggjur af því að deilan kunni að fara úr böndum.

OAO Gazprom, sem hefur einokunarstöðu í framleiðslu á gasi í Rússlandi, stöðvaði útflutning á gasi til Úkraínu þann 1. janúar sl. eftir að viðræður um verð fyrir þetta ár höfðu farið út um þúfur. Svipuð deila fyrir þremur árum leiddi til skorts á gasi í ESB, sem fær 25% af því gasi sem það notar frá Rússlandi og þar af 80% í gegnum Úkraínu, að því er segir í frétt WSJ.