Þann 9. febrúar mun Thorvald Stoltenberg,  fyrrum varnarmála- og utanríkisráðherra Noregs kynna tillögur sínar um aukið norrænt samstarf á sviði varnarmála, kynningin verður á sérstökum norrænum utanríkisráðherrafundi í Ósló.

Á umræðufundi sem haldin var af upplýsingaskrifstofunni Norden i Fokus í Ósló og Norræna félaginu í Noregi þann 16. janúar skýrði hann hvaða áskoranir hann telur mikilvægastar.

Þetta kemur fram á vef Norðurlandaráðs.

„Ég lofaði að skýrslan yrði stutt, en skorinort", er haft eftir Stoltenberg.

Það var þann 16. júní í fyrra sem Stoltenberg var valinn til að gera greina og gera skýrslu um hvernig varnar- og utanríkismálastefna Norðurlanda gæti þróast næstu 10 - 15 árin.

Á fyrrnefndum umræðufundi gerði Stoltenberg grein fyrir þeim áskorunum sem hann telur mikilvægastar.

Þar bar helst að ísinn við Norðurskautið bráðnar mun hraðar en vísindamenn höfðu reiknað með, þróun hátæknivopna verður stöðugt dýrari og Sameinuðu þjóðirnar þurfa aðstoð við að verja almannaréttinn.

Stoltenberg telur allar þessar áskoranir svo mikilvægar að ekkert norrænt ríki geti leyst þær eitt og sér.

Á vef Norðurlandaráðs kemur fram að Norðurlöndin verja nú, hvert fyrir sig, um 200 milljörðum danskra króna á ári í varnarmál. Kostnaður við að þróa ný vopnakerfi eykst hratt. Jafnframt mun hlýnandi loftslag hafa þau áhrif að nýjar samgönguleiðir opnast um norðurslóðir, sem hefur einnig í för með sér nýjar áskoranir.

Sjá nánar vef Norðurlandaráðs.