Tillögur sérfræðingahóps um afnám verðtryggingar á neytendalánum voru kynntar fyrir ráðherrum á fundir ríkisstjórnarinnar í morgun. Ekki liggur fyrir hvað tillögurnar hljóða upp á. Viðskiptablaðið sagði frá því í síðustu viku að ekki sé búist við að blátt bann verði lagt við veitingu verðtryggðra lána þótt að aðrar breytingar verði lagðar til um fyrirkomulag slíkra lánveitinga.

Sérfræðingahópur um afnám verðtryggingar skilaði ráðherranefnd ríkisstjórnarinnar um skuldamál drög að niðurstöðum á föstudag í síðustu viku. Stefnt var á að kynna tillögurnar í ríkissstjórn í dag. Í ráðherranefndinni sitja þau Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra, Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra.

Skýrsla sérfræðingahópsins telur á annað hundrað blaðsíður með viðaukum.