„Því var komið á framfæri við EFTA að hagstæðasta ferðatilhögunin var alltaf valin með tilliti til verðs, framboðs ferða, tengimöguleika og fleira,“ segir í svari fjármála- og efnahagsráðuneytisins við fyrirspurn Viðskiptablaðsins um kvörtun Iceland Express til eftirlitsstofnunar EFTA.

Iceland Express segir Icelandair hafa fengið ólögmæta ríkisaðstoð og rökstyður það með því að yfirvöld hafi átt í viðskiptum við Icelandair þrátt fyrir að hagstæðara verð hafi boðist annars staðar.

Í fyrri hluta kvörtunarinnar segir að ríkið hafi árið 2009 einungis gert rammasamning um flugsætakaup við Icelandair, þrátt fyrir að ódýrari kostir hafi boðist. Þá segir að á grundvelli rammasamnings við bæði flugfélögin árið 2011 hafi nær einungis verið verslað við Icelandair þó að Iceland Express hafi boðið lægra verð.

Kvörtun Iceland Express barst EFTA í október síðastliðnum og er nú til meðferðar hjá eftirlitsstofnuninni. Ekki hefur verið tekin ákvörðun innan stofnunarinnar um hvort hafin verði formleg rannsókn á málinu. Eftirlitsstofnunin hefur óskað eftir og fengið viðbrögð frá ríkinu vegna málsins. Viðskiptablaðið óskaði eftir afriti af bréfi yfirvalda en var synjað um það.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.