Árlegur hagnaður af ræktun kannabis á hvern ferkílómetra er tæpir 48 milljónir dollara og er þetta því sú planta sem gefur mestar tekjur af sér að því er fram kemur á vef Bændablaðsins. Ræktun kókaplöntunnar gefur 38 milljónir í hagnað á hvern ferkílómetra og ræktun ópíum-valmúa 6 milljónir. Afurðirnar sem þessar plöntur gefa af sér (marijúana, hass, kókaín og heróín) eru ólöglegar víðast hvar í heiminum.

Langmest er ræktað af hveiti, maís, hrísgrjónum og sojabaunum í heiminum samkvæmt Bændablaðinu. Árlegur hagnaður á hvern ferkílómetra er hins vegar aðeins brot af hagnaðinum sem „ólöglegu" plönturnar gefa af sér. Þannig er áætlaður hagnaður á ferkílómetra af hrísgrjónum um 140 þúsund dollarar. Í fjórða sæti yfir þær plöntur sem gefa mestan hagnað á hvern ferkílómetra eru tómatar. Hagnaðurinn af þeim er um 1,4 milljón á ferkílómetra.

Hægt er að lesa nánar um þetta á vef Bændablaðsins .