*

miðvikudagur, 8. desember 2021
Innlent 21. ágúst 2015 09:26

Rafkerfisbilun í flugvél Icelandair

Flugvél Icelandair sem var á leið til Keflavíkur frá Washington í nótt þurfti að lenda í Toronto.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Flugvél Icelandair, sem var á leið frá Washington í Bandaríkjunum til Keflavíkur í nótt, þurfti að snúa við eftir rúmlega tveggja klukkustunda flug og lenda í Toronto vegna bilunar í rafkerfi. Þetta staðfestir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, í samtali við Viðskiptablaðið.

Guðjón segir að engin hætta hafi verið á ferðum en ákveðið hafi verið að snúa vélinni við í öryggisskyni til þess að færa hana til viðgerðar. Hann segir að farþegar vélarinnar muni komast á áfangastað síðar í dag.

„Vélin mun tefjast eitthvað fram eftir degi. Við reynum að koma farþegunum í fyrsta lagi á hótel og svo með öðru flugi á áfangastað í dag. Það eru tvær af okkur vélum að fara frá Toronto í dag og svo fara aðrir farþegar með öðrum flugfélögum yfir hafið, þar sem stærsti hluti farþeganna var á leiðinni til Evrópu með millilendingu í Keflavík,“ segir Guðjón.

Stikkorð: Icelandair