Íslenska fjártæknifélagið Monerium greinir frá því í dag að rafeyrir félagsins hafi nú í heimild til að veita þjónustu sína í alls sjö Evrópulöndum. Þar að auki sé nú hægt að fá rafeyri útgefinn í fjórum gjaldmiðlum; bandarískum dollar, evru, bresku pundi og íslenskum krónum.

Í frétt á vef félagsins segir að þessi áfangi þýði að félagið geti nú stutt notendur og samstarfsaðila sína í sjö Evrópulöndum og fjórum gjaldmiðlum.

Áfanginn geri félaginu kleift að halda áfram uppbyggingu í samræmi við þá framtíðarsýn að löglegur rafeyrir á bálkakeðju muni halda áfram að ryðja sér til rúms. Fyrirtæki geti nú átt í viðskiptum þvert á landamæri í bálkakeðjum löglegs rafeyris, bæði innanhúss og milli fyrirtækja. Sameining rafrænna peninga og dreifðrar greiðslumiðlunar sýni hvernig bálkakeðjutæknin geti gert milliliði óþarfa í greiðslum þvert á landamæri.

Monerium þróar lausnir og þjónustur sem nýta bálkakeðjur til að stunda hefðbundna fjármálaþjónustu. Það var stofnað af Gísla Kristjánssyni, Hirti Hjartarsyni, Jóni Helga Egilssyni og Sveini Valfells, sem er jafnframt forstjóri fyrirtækisins.