Flestir þeirra sem ákveða að fjárfesta í sýndarfé, eða í rafmyntum, gera það vegna hagnaðarvonar, eða um 70%. Þetta kemur fram í könnun Gallup sem var gerð fyrir Seðlabanka Íslands og birtist í Fjármálastöðugleika.

Um 50% fjárfesta nefndu áhuga á tækninni að baki rafmyntum sem ástæðu fyrir fjárfestingunni. Einn af hverjum þremur nefndi litla ávöxtun á sparnaðarreikningum og verðbréfum. Það sem vekur athygli í könnun Gallup er að einn af hverjum fimm nefndi lítið traust á íslensku krónunni sem ástæðu til fjárfestingar í rafmyntum.

Sjá einnig: Nærri tíundi hver fjárfest í rafmyntum

Samkvæmt könnun Seðlabankans er algengast að karlmenn á aldrinum 18-34 ára, sem skilgreina sig sem áhættusækna með áhuga á tækninýjungum, fjárfesti í sýndarfé. Erlendar kannanir hafa sýnt sama mynstur. Meirihluti hópsins segist hafa þekkingu á verðbréfum en aðeins 17,5% ber traust til fjármálakerfisins.

Af þeim sem höfðu keypt í sýndarfé svaraði um 70% í aldurshópnum 18-34 ára að það væru líkur á að hagnast á viðskiptunum. Könnunin sýnir einnig að 50% einstaklinga undir 35 ára aldri sem fjárfest hafa í sýndarfé hafa fjárfest fyrir meira en 10% af ráðstöfunartekjum.