Rafmyntir, eða sýndarfé eins og þær nefnast í íslenskum lögum, teljast hvorki viðurkenndur lögeyrir né gjaldmiðill samkvæmt lögum og um þær gilda ekki nein sérákvæði um skattlagningu. Þar til nýlega hefur nokkur óvissa ríkt um skattalega meðferð þeirra. Ríkisskattstjóri hafði á sínum tíma viðrað þá skoðun að rafmyntir væru eðlislíkar lausafé með þeim rökstuðningi að þær væru ekki fyrnanlegar og þar með ætti að meðhöndla þær skattalega með sama hætti og hlutafjáreign, þar sem fjármagnstekjuskattur skyldi greiðast af söluhagnaði.

Almennar tekjur eða fjármagnstekjur?

Í úrskurði yfirskattanefndar (YSKN) í júlí árið 2020, nr. 97/2020, fann YSKN að því að embætti skattrannsóknarstjóra hefði ekki fært rök fyrir að ávinningur af greftri einstaklings eftir rafmyntinni Bitcoin og sölu myntarinnar í framhaldi ætti frekar undir lagareglur um söluhagnað eigna en aðrar tekjutegundir samkvæmt lögum um tekjuskatt og ríkti í kjölfarið nokkur óvissa um skattalega meðferð rafmynta.

Í svari Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra frá því í maí 2021 við fyrirspurn þingmannsins Bryndísar Haraldsdóttur um skattaframkvæmd rafmynta kom fram að ríkisskattstjóri hefði í skattaframkvæmd litið svo á að tekjur einstaklings af viðskiptum með rafmyntir væru eignatekjur sem skattleggja bæri sem fjármagnstekjur, enda væri ekki um atvinnurekstrartekjur að ræða. Þannig væri nærtækast að líta á tekjurnar sem hagnað af sölu lausafjár. Í svari ráðherra kom enn fremur fram að til greina kæmi að hagnaður af sölu yrði skattlagður sem almennar tekjur hjá viðkomandi skattaðila en ekki fjármagnstekjur.

Ekki lögeyrir, gjaldmiðill eða rafeyrir

Þann 22. desember síðastliðinn úrskurðaði YSKN (úrskurður nr.215/2021) í máli er laut að sömu sölu rafmynta og fyrrnefndur úrskurður. Í málinu var ekki deilt um þá ákvörðun ríkisskattstjóra að fara með tekjur af sölu á rafmynt sem hagnað af sölu ófyrnanlegs lausafjár, annars en hlutabréfa og eignarhluta í samlögum og sameignarfélögum, en engu að síður þótti nefndinni tilefni til að víkja að skattlagningargrundvelli í málinu.

Í úrskurðinum segir meðal annars að rafmyntin Bitcoin hafi þau einkenni að engar undirliggjandi eignir eða peningaleg verðmæti standi að baki hverri einingu. Þá sé hún ekki til á efnislegu formi, svo sem í formi prentaðra seðla eða sleginnar myntar, heldur takmarkist tilvera hennar við það að vera tvíundartöluruna sem skráð er í bálkakeðju á jafningjaneti. Gangi hún þannig kaupum og sölum þar sem verðið sé ákveðið af framboði og eftirspurn. Er þar bent á að þótt rafmyntin hafi sem greiðslumiðill í viðskiptum ákveðin einkenni peninga eða gjaldmiðils, séu rafmyntir ekki viðurkenndur lögeyrir á Íslandi og teljist hvorki gjaldmiðill né rafeyrir samkvæmt íslenskum lögum. Að þessu virtu tók nefndin undir það með ríkisskattstjóra að nærtækast væri að líta á tekjur af sölu rafmyntarinnar Bitcoin sem tekjur af sölu lausafjár í skattalegum skilningi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .