Samtök atvinnulífsins hafa sent Alþingi umsagnir um þingsályktun um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína og lagafrumvarps um kerfisáætlun við lagningu raflína. Þar kemur fram að þau telji mikilvægt að sveitarfélögum verði skylt að gera ráð fyrir kerfisáætlun í skipulagi sínu auk þess sem að samtökin lýsa yfir áhyggjum af kostnaði sem fylgir fyrirhugaðri uppbyggingu flutningskerfi raforku. Þetta kemur fram í frétt á vef SA.

Þá segir í fréttinni að SA telji það óeðlilegt að sveitarfélög geti haldið endurbótum á flutningskerfi raforku í gíslingu svo árum skipti og komið þannig í veg fyrir aðlilegt orkuöryggi í öðrum landshlutum og tafið nauðsynlega uppbyggingu atvinnustarfsemi.

Einnig kemur fram að „Samtökin hafa miklar áhyggjur af gríðarlegum kostnaði sem fylgir fyrirhugaðri uppbyggingu flutningskerfis raforku sérstaklega ef ákvörðun verður tekin um að sífellt stærri hluti þess verður lagður í jörð. Vísað er til upplýsinga frá Landsneti og rakin nokkur dæmi um nauðsynlegar gjaldskrárhækkanir bæði til almennings, almenns reksturs og stórnotenda.

Bent er á að verði heimilað að jarðstrengir megi verða 50% dýrari en loftlínur geti heildarhækkun gjaldskrár á flutningi raforku til almennra fyrirtækja og heimila orðið um 50% og um 36% til stórnotenda.“