Útflutningsverðmæti íslenskra sjávarafurða hefur hækkað um 30-50% af raunvirði frá árinu 1993 á meðan heimsmarkaðsverð á sjávarafurðum hefur ekki hækkað að marki á sama tíma. Kom þetta fram í máli Ragnars Árnasonar, hagfræðiprófessors, á ráðstefnu um áhrif fiskveiðistjórnunar á sjávarútveg, sem Tímarit um viðskipti og efnahagsmál stóð fyrir.

Sagði Ragnar að árlegur meðalvöxtur á raunvirði útflutningsverðmætis íslenskra sjávarafurða hafi verið um 3,0% frá 1993 til 2010. Í krónum talið segir Ragnar að þetta samsvari um 50-70 milljörðum sem komi inn í þjóðarbúið á hverju ári umfram það sem hefði verið ef útflutningsverðmætið hefði ekki aukist.

Nokkrar ástæður fyrir árangrinum

Ástæðurnar eru nokkrar að sögn Ragnars. Má nefna Bætt gæði afla, betri samhæfing veiða og vinnslu, betri nýting afla í vinnslu, þróun nýrra, sérhæfðari afurða, markaðsþróun og markaðsuppbygging og kvikari og snjallari markaðssetning. Þessir hlutir krefjast fjárfestingar í fjármunum, mannauði og markaðsstöðu. Segir hann að fjárfestingar sem þessar séu sambærilegar við fjárfestingu í fiskiskipum, því þær miða að því að auka virði afla.

Ragnar segir að aflamarkskerfið, sem betur er þekkt sem kvótakerfið, eigi ríkan þátt í þessum árangri. Kerfið hvetji til aflagæða, auðveldi samhæfingu veiða og vinnslu, skapi getu og hvata til vöruþróunar og markaðssóknar. Þegar samkeppnin snýst ekki lengur um að veiða sem mest, heldur að auka verðmæti aflans hvetur það til aflagæða, vöruþróunar og markaðssóknar. Þegar arðurinn er meiri af veiðunum eykst einnig getan til að fjárfesta í því sem að fjárfesta þarf í.

Segir frumvörpin hafa slæm áhrif

Allt sem skerðir aflamarkskerfið dregur úr þessum áhrifum að mati Ragnars. Frumvörpin tvö sem liggja fyrir þinginu, þ.e. annars vegar um stjórn fiskveiða og hins vegar um veiðigjald, fela í sér skerta tímalengd á heimildum, framsal á aflaheimildum og minna öryggi fyrir fyrirtækin. Brenglaður rekstur fyrirtækja leiðir til minni hagkvæmni og Verðlækkun aflaheimilda leiðir til veikingar á efnahag fyrirtækjanna og þar með minni getu þeirra til að fjárfesta í markaðssetningu og öðru slíku.

Hvað varðar veiðigjalið segir Ragnar að sérstök skattlagning eins og veiðigjaldafrumvarpið felur í sér breyti hegðun fyrirtækjanna og leiði til minni hagkvæmni í rekstri. Þá felur hún í sér að fyrirtækin hafa minna ráðstöfunarfé, lakari efnahag og þurfa því að greiða hærri vexti af sínum lánum. Það hafi neikvæð áhrif á getu fyrirtækjanna til að fjárfesta í vélbúnaði, markaðssetningu og öðru slíku. Það geti ekki haft neinar aðrar afleiðingar en að samkeppnisstaða íslensks sjávarútvegs versni.