Ragnar Þórisson, sjóðsstjóri hjá vogunarsjóðnum Boreas Capital, segir ömurlegt til þess að hugsa að Íslendingar skuli þurfa að taka á sig skuldbindingar vegna Icesave reikninganna. Hann segist þó telja að það sé nauðsynlegt til að halda efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar. Hann telur að eignir dugi fyrir skuldum.

Ragnar segir að nú séu tvær leiðir fyrir þjóðina: ,,Önnur er upp og hin niður og þar skiptir að sjálfsögðu miklu máli þessi stóra hraðhindrum sem var á flugbrautinni. Það þurfti að fjarlægja hana svo að vélin komist á loft. Ég tel að fjármálaráðherra hafa sýnt mikinn kjark með því að ráðast í þetta og klára málið. Nú þurfum við bara að fara að snúa okkur að endurreisninni í einum grænum, þetta væl er að verða óþolandi. Þeir sem gagnrýnt hafa þessi vexti og þessi kjör hafa takmarkaða þekkingu á fjármálamörkum.“

Vextir vel viðunandi

Ragnar segist telja vextina mjög vel viðunandi. Hann bendir á að íslensk ríkisskuldabréf, sem skráð eru í evrum, séu með ávöxtunarkröfu uppá 18-19% samkvæmt síðustu viðskiptum. ,,Út frá þeirri einkunn (e. credit rating) sem íslenska ríkið er með þá ættum við  hugsanlega að geta fengið 10-12% langtímavexti. Það má ekki horfa á stýrivexti í þessu sambandi þar sem þeir eru ekki langtímavextir. Hugsanlega hefði verið hægt að binda þetta með svokölluðu álagi (150-250 punkta) á LIBOR sem líklega hefði verið gott næstu 6 til 12 mánuði og gæfi lægri vexti en 5,55%. En þegar stýrivextir hækka, sem gerist líklegast á næsta ári, þá gæti verið mun betra að vera með þessa föstu vexti. Einnig er  mjög gott að vera með uppgreiðslufrest á þessu þannig að ef hlutirnar lagast hratt og okkur býðst betra lán þá getum við greitt þetta lán upp.“

Eignir duga fyrir skuldum

Ragnar benti á að markaðir erlendis hafa verið mjög sterkir síðustu tvo mánuði og því líklegt að það versta sé yfirstaðið og taldi hann sig sjá ótvíræð merki um það. Hann benti á að hlutabréfamarkaðir séu yfirleitt sex mánuðum á undan hagkerfinu og því líklegt að sterkari merki um bata í heimshagkerfinu muni koma í haust.

,,Ég er ekki í vafa um það að eignir munu duga fyrir skuldum og ef rétt teymi er fengið í það að selja þessar eignir á næstu árum þá muni það ganga vel. Það er gríðarlega þægilegt að vera ekki með neina sölupressu næstu sjö árin, það þekkja leikmenn á þessum fjármálamarkaði.“

Ragnar sagði að næsta skref væri mjög mikilvægt og heppilegt væri að byrja á því að fá virtan banka eins og Goldman Sachs eða Lazard til að gera virðismat á eignum Icesave. Hann sagði að gera ætti þríhliða mat sem miðaðist við að þetta yrði selt á: a) næstu þremur mánuðum, b) eftir 3 ár og c) eftir 7ár.

Átti að láta bankana fara

,,Það dugar mér ekki að endurskoðendaskrifstofa í London geri slíkt mat,“ sagði Ragnar og bætti við. „Það er ljóst að þau viðbrögð sem eru við þessu í þjóðfélaginu eru ekki að hjálpa til við endurreisn landsins en þau eru skiljanleg. Við skulum ekki gleyma að ríkisstjórnir í Evrópu og Bandaríkjunum eru búnar að dæla skattpeningum, 10 til 50% af landsframleiðslu, inn í sína banka í nokkrum lotum til að halda þeim á lífi en slíkt höfum við sem betur fer ekki gert hér á landi. Stjórnvöld höfðu vit á því að leyfa þeim að flakka strax þegar að Glitnir bað um fyrsta lánið hjá Seðlabankanum.

Að sitja uppi með þetta Icesave mál er vont en við eigum ansi góða von á því að sleppa alveg út úr þessu og jafnvel eru góðar líkur á að það verði búið að selja allar eignir og greiða þetta lán upp innan fimm ára. Ég verð því að segja að mér finnst að fjármálaráðherra hafi staðið sig gríðarlega vel í þessu máli. Auðvitað telja allir sig hafa getað  náð betri samningum en ég tel svo ekki vera miðað við þær aðstæður sem við vorum í.“