Ragnar Trausti Ragnarsson hefur verið ráðinn sjónvarpsstjóri Spyr.is . Sjónvarp fer í loftið 15. maí næstkomandi á vefsíðu Spyr.is. Ragnar Trausti er 28 ára og er um þessar mundir að klára mastersnám í ritstjórn og útgáfu frá Háskóla Íslands. Hann lærði kvikmyndagerð í Svíþjóð og fór í kvikmyndafræði í Háskóla Íslands.

Fram kemur í tilkynningu frá Spyr.is að í sjónvarpinu verði aðeins boðið upp á íslenskt efni. Sjónvarpið er byggt upp á sama hátt og flest myndbönd eru á YouTube og Vine.

Í tilkynningu segir Rakel Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri og stofnandi Spyr.is:

„Það er svo margt erlent efni orðið vinsælt á YouTube og Vine og því um að gera að fara að virkja almenning hér í sambærilega dagskrárgerð. Það er eitt af því sem við munum gera, enda byggir Spyr.is á þátttöku notenda nú þegar. Þar má helst nefna fréttastofu Spyr.is , en þar setjast lesendur í stól blaða- og fréttamanna og spyrja spurninga. Spyr.is fær svörin og birtir þau í fréttaformi á vefsíðunni, auk efnis sem er vinsælt á veraldarvefnum. Lesendur hafa nú þegar fengið svör frá á fimmta þúsund aðilum, en aðeins Rannsóknarnefnd Alþingis hefur ekki svarað fyrirspurn almennings á Spyr.is , það sem af er þessu ári. Fólk er því alveg tilbúið til að stýra netmiðli eins og Spyr.is og mun fara að gera það í auknum mæli með Spyr Sjónvarpi.”