Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, heldur í vinnuferð til Frakklands dagana 28. til 30. apríl næstkomandi. Hún mun m.a. funda með Arnaud Montebourg, ráðherra efnahagsmála, framleiðniaukningar og upplýsingatæknimála, og Ségolène Royale, ráðherra sjálfbærrar þróunar, vistkerfa og orkumála. Fram kemur í tilkynningu að tilgangur fundanna er einkum að ræða gagnkvæmar fjárfestingar í löndunum tveimur og samstarf á sviði orkumála, ekki síst með hliðsjón af jarðvarma. Á sama tíma og Ragnheiður Elín verður úti opnar sýning á verkum Erró höfuðstöðvum UNESCO.

Þá mun ráðherrann taka þátt í tveimur opinberum viðburðum á sviði viðskiptamála. Annars vegar verður hún viðstödd fyrsta aðalfund Fransk-íslenska viðskiptaráðsins (FRIS) í Frakklandi og hins vegar tekur hún þátt í opnum fundi um nýsköpun í atvinnulífinu undir yfirskriftinni „Discover Innovative Iceland“, þar sem sérstök áhersla verður lögð á ferðamál, kvikmyndaiðnað og sprotafyrirtæki á Íslandi. Þessi fundur fer fram í hinum glæsilega Colbert-sal franska þingsins. Einnig mun ráðherrann sitja fundi hjá Efnahags- og framfarastofnuninni, OECD.