Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, hefur lagt fram frumvarp um jöfnun húshitunarkostnaðar. Þetta kom fram í hádegisfréttum RÚV . Nái frumvarpið í gegn verður kostnaður við flutning og dreifingu rafmagns vegna húshitunar hjá sem þeim sem geta ekki nýtt jarðvarma niðurgreiddur að fullu frá og með 1. janúar næstkomandi.

Í fréttatilkynningu frá Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu segir að með frumvarpinu sé stigið mikilvægt skref til að jafna orkukostnað eftir landsvæðum og búsetuskilyrði um allt land. Stefna ríkisstjórnarinnar sé að líta á húshitun sem grunnþjónustu sem allir íbúar landisins eigi að fá á sambærilegum kjörum.

Í dag geta 90% landsmanna hitað hús sín með jarðvarma, en frumvarpið er miðað að þeim 10% sem nota rafmagn til húshitunar. Húshitunarkostnaður er mun hærri hjá þessum íbúum en hjá þeim sem nýta jarðvarma og hefur munurinn farið vaxandi síðastliðin ár. Ríkið hefur hingað til niðurgreitt kostnaðinn að hluta. Beinar niðurgreiðslur ríkisins hafa verði 1.280 milljónir á ári, eða um 80% af kostnaði íbúa við flutning og dreifingu raforku. Áætlað er að hækka þurfi framlögin um 215 milljónir króna á ári til að mæta þessum kostnaði að fullu.