Svo virðist sem ráðherrar nýrrar ríkisstjórnar séu ekki sammála um stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar og eru nú komin fram misvísandi skilboð um mögulegar álversframkvæmdir.

Í verkefnaskrá nýrrar ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna kemur fram að engin ný áform um álver verði á dagsskrá ríkisstjórnarinnar.

Þannig sagði Kolbrún Halldórsdóttir, umhverfisráðherra í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins að álversuppbygging á Bakka við Húsavík væri ekki á dagskrá nýrrar ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna.

Hún sagði að einblínt yrði á atvinnuuppbyggingu á svæðinu sem sé meira í takt við umverfisstefnu ríkisstjórnarinnar.

Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra sagði þó í kvöldfréttum Stöðvar 2 að ákvæði í stjórnarsáttmála um engin ný álver hefði hvorki áhrif á álver í Helguvík né undirbúning álvers við Bakka.

„Þessi setning þýðir það eitt að það þýðir ekkert fyrir erlend álfyrirtæki að koma og banka uppá hjá iðnaðarráðherranum. Það verða engin ný áform um álver," sagði Össur í viðtali við Stöð 2 aðspurður um fyrrnefnt atriði í verkefnaskrá ríkisstjórnarinnar.

Össur sagði það liggja fyrir að búið sé að taka ákvarðanir varðandi Helguvík og þeim verði ekki breytt.

Þá sagði Össur að  áform um álver við Bakka væru gömul áform.

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 var Össur spurður hvort orðin í stefnuyfirlýsingunni, „engin ný áform um álver verða á dagskrá ríkisstjórnarinnar," eigi hvorki við Helguvík né Bakka og svaraði hann játandi.