Frönsk yfirvöld hafa hafið rannsókn á mögulegum innherjaviðskiptum og birtingu misvísandi upplýsinga í flugiðnaðarfyrirtækinu EADS, segir í frétt Financial Times.

Saksóknaraembættið í París ákvað að hefja rannsókn í fyrirtækinu, sem er í eigu þýskra og franskra aðila, eftir að kvartanir bárust frá hluthöfum. Nokkrir stjórnenda fyrirtækisins og tveir stærstu hluthafar fyrirtækisins, Lagardére og DaimlerChrysler, seldu hluti í fyrirtækinu aðeins örfáum vikum áður en tilkynnt var um alvarleg vandamál í framleiðslu Airbus þotnanna.

Einn hluthafana sem lagði fram kvörtun, Appac, segir að fjórir meðlima framkvæmdarstjórnar fyrirtækisins hafi grætt sjö milljónir evra með sölu á hlutabréfarétti sínum í mars síðastliðnum. Þeirra á meðal er fyrrum framkvæmdarstjóri Airbus, Noël Foregeard, en honum var vikið úr starfi í júlí. Rannsóknin mun þó ekki einskorðast við þessa fjóra aðila.

EADS segir að fyrirtækið hafi ekki borist tilkynning um að rannsókn stæði yfir, en að fyrirtækið muni vinna með yfirvöldum í einu og öllu.

Foregeard segist ekkert hafa gert rangt hvorki þegar hann nýtti sér hlutabréfarétt sinn, né í upplýsingamiðlun EADS í kjölfarið.