Rannsóknarskýrslu um fall sparisjóðanna verður skilað til Alþingis í haust ef áætlanir ganga eftir. Bjarni Frímann Karlsson, lektor í viðskiptafræði, sem situr í nefndinni segir að það verði þó í fyrsta lagi 1. september. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.

Stefán Hallur Stefánsson, fyrrverandi héraðsdómari og formaður rannsóknarnefndar um Íbúðalánasjóð segir að erfitt sé að ákveða endapunkt á skilum skýrslu nefndarinnar en að stefnan sé sett á að skila í haust.

Upprunalega hafði rannsóknarnefndin vegna falls sparisjóðanna frest til 1. júní til að skila sinni skýrslu en það dróst um þrjá mánuði að skipa í nefndina eftir að þingsályktunartillaga um málið var samþykkt. Skýrslan um Íbúðalánasjóð hefði í raun átt að vera skilað í mars en ljóst er að skil á henni munu einnig dragast fram á haust.