Gerðar hafa verið rannsóknir á Drekasvæðinu svokallaða og niðurstaðna frá þeim er að vænta í vor. Þetta segir Gunnlaugur Jónsson, framkvæmdastjóri Eykon Energy í samtali við Morgunblaðið.

Hljóðmyndir hafa verið teknar auk þess sem að endurvarps- og jarðsveiflumælingar hafa verið gerðar á svæðinu en enn á eftir að bora á svæðinu til að fá endanleg svör við því hvort olíuvinnsla sé vænleg þar.

Olíuverð hefur farið ört lækkandi síðastliðna mánuði og hafði í síðustu viku ekki verið lægra í ellefu ár þegar tunna af Brent Norðursjávarolíu fór niður í 36 bandaríkjadollara. Eftir að markaðir opnuðu eftir jólahelgina í gær hélt verðið áfram að lækka .

Eykon Energy hefur verið í samstarfi við kínverska fyrirtækið CNOOC og norska fyrirtækið Petoro við að rannsaka Drekasvæðið en Gunnlaugur segist búast við því að boranir hefjist í kringum 2020.

„Fjárfestingar í olíuiðnaði hafa minnkað mikið og menn hafa áhyggjur af því að olíuverðið muni næst hækka of hratt; að það verði ójafnvægi í hina áttina. Framleiðslan er stöðugt að minnka alls staðar en það þarf alltaf að fjárfesta bara til að halda þessu í horfinu,“ segir Gunnlaugur.