Rannveig Sigurðardóttir og Unnur Gunnarsdóttir hafa verið fluttar í starf varaseðlabankastjóra, að því er fram kemur í tilkynningu á vef Stjórnarráðs Íslands. Rannveig var áður aðstoðarbankastjóri Seðlabankans og Unnur gegndi stöðu forstjóra Fjármálaeftirlitsins, en breytingin er tilkomin vegna nýrra laga um Seðlabanka Íslands.

Lögin voru samþykkt í júní sl. og í þeim er kveðið á um að skipaðir verði þrír varaseðlabankastjórar til fimm ára í senn. Einn varaseðlabankastjórinn leiði málefni sem varða peningastefnu, annar málefni sem varða fjármálastöðugleika og sá þriðji málefni sem varða fjármálaeftirlit.

„Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, hefur flutt Rannveigu Sigurðardóttur í starf varaseðlabankastjóra peningastefnu frá og með 1. janúar 2020 með hliðsjón af bráðabirgðaákvæði nýju laganna. Þar kemur fram að embætti aðstoðarseðlabankastjóra verði lagt niður þegar lögin öðlast gildi um næstu áramót og að forsætisráðherra sé heimilt án auglýsingar að flytja núverandi aðstoðarseðlabankastjóra í nýtt embætti varaseðlabankastjóra.

Þá hefur Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, flutt Unni Gunnarsdóttur í starf varaseðlabankastjóra fjármálaeftirlits frá og með 1. janúar 2020 með hliðsjón af bráðabirgðaákvæði laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Þar kemur fram að embætti forstjóra Fjármálaeftirlitsins verði lagt niður þegar sameining Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins öðlast gildi um næstu áramót og að fjármála- og efnahagsráðherra sé heimilt án auglýsingar að flytja forstjóra Fjármálaeftirlitsins í nýtt embætti varaseðlabankastjóra fjármálaeftirlits,“ segir í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.