Rannveig Guðmundsdóttir, fv. ráðherra og fv. þingmaður Samfylkingarinnar, segir að í löndunum í kringum okkur þar sem jafnaðarstefnan hafi verið sterkt samfélagsafl og hornsteinn í uppbyggingu velferðarsamfélaga hafi sósíaldemókratískir flokkar legið á miðjunni og yfir til vinstri. Þannig eigi það að vera hér líka, annars verði miðjan auð.

Þetta segir Rannveig í stuðningsgrein við framboðs Árna Páls Árnasonar sem birtist á vef Vísis í morgun. Ekki má skilja orð Rannveigar öðruvísi en svo að hún telji Samfylkinguna í dag hafa færst of langt til vinstri og því þurfi að breyta.

Í greininni segist Rannveig hafa tekið því afar illar þegar Árni Páll var settur út úr ríkisstjórn um sl. áramót og í kjölfarið hafi fylgi Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi (Kraganum) hrunið, en það er kjördæmi Árna Páls. Rannveig víkur hörðum orðum að forystu ríkisstjórnarinnar, og þar með Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra og formanns Samfylkingarinnar, þegar hún segir fyrrnefndan gjörning óskiljanlegan. Hún segir þó jafnframt að Árni Páll hafi styrkst af þessu til lengri tíma.

„Þegar Jóhanna Sigurðardóttir kynnti brotthvarf sitt úr pólitík eftir farsælan stjórnmálaferil í áratugi gaf hún boltann tímanlega til flokksmanna varðandi nýja forystusveit. Nú er tími kominn á kynslóðaskipti,“ segir Rannveig í greininni.