*

mánudagur, 25. október 2021
Innlent 20. september 2021 13:39

Rapyd og SaltPay í hár saman

Rapyd hefur sakað stafsmenn Borgunar, nú SaltPay, um að hafa nálgast viðskiptavini sína undir fölskum formerkjum.

Ritstjórn
Gömlu höfuðstöðvar Borgunar við Ármúla 30.
Haraldur Guðjónsson

Fjártæknifyrirtækið Rapyd Europe kvartaði til Neytendastofu vegna meintra villandi og óréttmætra viðskiptahátta Borgunar, sem nú heitir SaltPay, í lok síðasta árs. Starfsmenn Borgunar eru sakaðir um að hafa nálgast viðskiptavini Rapyd undir fölskum formerkjum og talið þeim trú um að Borgun væri væri búið að kaupa greiðsluþjónustufyrirtækið sem viðskiptavinirnir væru í viðskiptum við. Neytendastofa taldi að ekkert hafi fram komið í málinu sem sýnt gæti fram að Borgun hafi beitt villandi eða óréttmætum viðskiptaháttum. Þetta kemur fram á vef Neytendastofu.

Rapyd, sem keypti Korta vorið 2020, tjáði Neytendastofu að sér hafi borist ábendingar frá viðskiptavinum sínum. Einn þeirra sagði að starfsmenn Borgunar hafi mætt fyrirvaralaust á starfsstöð hans og skipt út greiðsluposum Rapyd fyrir greiðsluposa sem Borgun leigi út. Aðspurðir hafi starfsmenn Borgunar sagt að Borgun hafi fest kaup á því greiðsluþjónustufyrirtæki sem viðskiptavinurinn ætti í viðskiptum við og því væru þeir mættir á staðinn til þess að bjóða honum betri kjör og hraðvirkari greiðsluposa.

Umræddur viðskiptavinur hafi ekki gert sér grein fyrir að með því að skipta um greiðsluposa væri hann einnig að skipta um færsluhirði. Það hafi því komið flatt upp á hann þegar honum fóru að berast uppgjör frá Borgun í stað Rapyd enda hafi hann ekki verið upplýstur um það af starfsmönnum Borgunar.

Viðskiptavinurinn á þá að hafa haft samband við Borgun til þess að kvarta og hafi óskað eftir að fá aftur greiðsluposana sem hann hafði verið með samkvæmt þjónustusamningi við Rapyd. Starfsmenn Borgunar hafi þá mætt öðru sinni til viðskiptavinarins og skipt um greiðsluposa en látið hann aftur hafa greiðsluposa frá Borgun. Þá hafi hann verið upplýstur um að Borgun byggði viðskiptasambandið á gömlum þjónustusamningi sem viðskiptavinurinn hafi gert við Borgun en sagt upp þegar hann hóf viðskipti við Rapyd.

Rapyd nefnir annað dæmi um að viðskiptavinur sinn hafi fengið heimsókn frá aðilum sem kynntu sig sem starfsmenn Korta. Þeir hafi tjáð viðskiptavininum að eigendaskipti áttu sér stað og því þyrfti að skipta um greiðsluposa. Umræddir aðilar tóku þó ekki fram að hann myndi skipta um færsluhirði og því hefja viðskipti við annað greiðslumiðlunarfyrirtæki. „Rapyd hafi sterkan grun um að mennirnir sem um ræði séu starfsmenn Borgunar,“ segir í ákvörðun Neytendastofu.

„Til viðbótar við framangreint hafi Rapyd borist upplýsingar um fleiri tilvik þar sem Borgun hafi beitt viðskiptavini Rapyd blekkingum og óeðlilegum þrýstingi til þess að fá þá til að skipta um greiðsluþjónustuaðila og hafa þannig viðskiptavini af Rapyd með óréttmætum hætti.“

Borgun hafnaði málatilbúnaði Rapyd að öllu leyti sem röngum og ósönnuðum. Félagið hafi verið í söluátaki þar sem starfsmenn hafi heimsótt núverandi og nýja viðskiptavini. Slíkt framferði fyrirtækis, að gefa sig á tal við nýja viðskiptavini, í því skyni að afla viðskipta, verði að telja eðlilegan hluta af starfsemi allra fyrirtækja. Einnig komi skýrt fram við stofnun nýrra viðskiptasambanda að um undirritun samnings við Borgun sé að ræða.

Misskilningur vegna eigenda- og nafnaskipta

Neytendastofa komst að þeirri niðurstöðu að ekkert hafi fram komið í málinu sem sýnt gæti fram að Borgun hafi beitt villandi eða óréttmætum viðskiptaháttum. Var það því mat Neytendastofu að ekki væri tilefni til aðgerða af hálfu stofnunarinnar í málinu.

„Það liggur fyrir að bæði Rapyd og Borgun hafa nýverið gengið í gegnum eigendaskipti og því samhliða nafnaskipti, Rapyd hét áður Korta og Borgun heitir nú Salt Pay. Að mati Neytendastofu má leiða líkum að því að sá misskilningur sem seljendur virðast hafa upplifað í framangreindum tilvikum megi rekja  til umræddra eigenda- og nafnaskipta. Neytendastofa hvetur bæði fyrirtæki til að gæta þess í samskiptum sínum við viðskiptamenn og aðra aðila að vera skýr í allri upplýsingagjöf og kynningarefni,“ segir í ákvörðuninni.

Stikkorð: Borgun Rapyd Rapyd Europe SaltPay