Raungengi íslensku krónunnar á síðasta ári var það lang lægsta undanfarin 95 ár eða svo. Á mælikvarða hlutfallslegs verðlags var raungengið tæplega 29% undir meðaltali áranna 1980-2008.

Um þetta er fjallað í Morgunkorni Íslandsbanka en munurinn var þó enn meiri ef stuðst er við hlutfallslegan launakostnað, en á þann kvarða var raungengið nærri 37% undir meðaltali síðustu þriggja áratuga.

„Síðarnefnda þróunin er til marks um það hrun í kaupmætti á alþjóðlegan mælikvarða sem orðið hefur hér á landi frá bankahruninu haustið 2008,“ segir í Morgunkorni.

„Þótt raungengi krónu hafi framan af öldinni lengst af verið talsvert yfir meðallagi áratuganna á undan er það mun lengra frá meðaltalinu nú en verið hefur áður.“

Raungengið hækkaði þó nokkuð í desember síðastliðnum, mælt á kvarða verðlags. Kom það til af meiri hækkun neysluverðs hérlendis en erlendis, auk þess sem krónan styrktist lítillega.

Greining Íslandsbanka segir athyglisvert að krónan hafi haldið sjó í desembermánuði þrátt fyrir stóran vaxtagjalddaga á skuldabréfum í eigu útlendinga og engin inngrip Seðlabankans á gjaldeyrismarkaði, en mánuðurinn var sá fyrsti frá hruni þar sem bankinn seldi ekkert úr gjaldeyrisforða sínum á millibankamarkaði.

Tekur tíma að ná jafnvægi að nýju

Þá kemur fram að undanfarna þrjá áratugi hefur aðeins verið afgangur af viðskiptajöfnuði í fimm ár, árin 1986, 1993-1995 og 2002. Þessi ár var raungengið á bilinu 91-97 miðað við vísitölu Seðlabankans, oftast nær við neðri mörk þessa bils.

„Því má draga þá ályktun að raungengi í kring um 90 miðað við vísitölu Seðlabanka hafi dugað á þessu tímabili til þess að skila afgangi af utanríkisviðskiptum,“ segir í Morgunkorni.

„Miðað við stöðu raungengisins í dag jafngilti það um það bil 30% sterkari krónu, eða því að evran kostaði í kring um 135 kr. og gengisvísitalan væri nærri 175 stigum. Hins vegar eru aðstæður nú gerbreyttar frá því sem var stærstan hluta þessa tímabils. Vegna meiri áhrifa af eigna- og skuldastöðu þjóðarbúsins spilar þáttatekjujöfnuður nú mun stærra hlutverk í þróun viðskiptajafnaðar en áður, auk þess sem bág staða hagkerfisins kallar á lægra raungengi en ella væri. Því kann að líða töluvert langur tími uns raungengið kemst í námunda við einhvers konar jafnvægi þrátt fyrir að vera nú í sögulegu lágmarki.“