Raungengi krónu hefur hækkað nokkuð það sem af er ári, segir í Morgunkorni Glitnis, og er nú talsvert hærra en svo að samræmist ytra jafnvægi þjóðarbúsins, en raungengi er mælikvarði á samkeppnishæfni þjóðarbúsins í alþjóðlegu tilliti. Mælt á kvarða hlutfallslegs verðlags var raungengi í september 108 stig samkvæmt nýlega birtum tölum frá Seðlabanka, en það er u.þ.b. 10% yfir meðalraungengi undanfarinna þriggja áratuga. Hækkunin það sem af er ári skýrist bæði af hækkun nafngengis krónu frá áramótum og eins því að verðbólga hér á landi hefur verið meiri en í viðskiptalöndum okkar.

Síðast ytra jafnvægi fyrir fimm árum
Síðast voru utanríkisviðskipti í grófum dráttum í jafnvægi á tímabilinu frá seinni hluta 2001 fram á vorið 2003, og var þá raungengi krónu einnig nærri langtímameðaltali, þótt erfitt sé að slá því föstu að það jafngildi jafnvægisraungengi. Á hinn bóginn virðist nokkuð skýrt að þensluskeið undanfarinna ára hefur bæði endurspeglast í raungengi yfir jafnvægi og miklum viðskiptahalla. Þannig hefur aukið aðhald í peningastefnu Seðlabanka haft þau áhrif að raungengi hefur hækkað vegna styrkingar nafngengis krónu fremur en vegna aukinnar verðbólgu. Ísland verður þannig ¿dýrt¿ í alþjóðlegu tilliti, hvort sem orsökin er hraðari hækkun verðlags (eða framleiðslukostnaðar ef miðað er við laun) eða gengisstyrking krónu gagnvart öðrum myntum.

Mun haldast hátt enn um sinn
Líklegt er að ytra ójafnvægi þjóðarbúsins verði talsvert enn um sinn og að raungengið muni að sama skapi haldast talsvert hátt, bæði vegna þess að mikill vaxtamunur við útlönd styður við nafngengi krónu, og eins þar sem verðbólga hér á landi mun að líkum verða öllu meiri en í viðskiptalöndum.