*

þriðjudagur, 7. júlí 2020
Innlent 28. febrúar 2014 10:24

SA: 150 milljarða kostnaður af íslensku krónunni

Íslensk heimili og fyrirtæki eru mjög skuldug og greiða mikla vexti miðað við viðskiptalönd Íslands.

Ritstjórn
Seðlabanki Íslands.
Haraldur Guðjónsson

Raunvextir hafa að jafnaði verið þremur prósentum hærri hér á landi en í viðskiptalöndunum, að teknu tilliti til meiri verðbólgu hér á landi. Þetta segir á vef Samtaka atvinnulífsins.  

Þar kemur fram að vaxtamunurinn hefur sveiflast frá 1,3% árið 1995 þegar Ísland var að rísa upp úr mikilli efnahagslægð, í 6,2% árið 2007. Raunvextirnir á Íslandi lækkuðu síðan mikið árið 2008 vegna lækkunar gengis krónunnar og verðbólgu í kjölfarið.

„Íslensk heimili og fyrirtæki eru mjög skuldug og finnast nánast hvergi dæmi um jafn hlutfallslega miklar skuldir. Heimilin og fyrirtækin eiga því mikið undir vaxtastiginu. Í síðustu skýrslu Seðlabankans um fjármálastöðugleika kom fram að á miðju ári 2013 hafi skuldir heimila numið 108,3% af landsframleiðslu og skuldir fyrirtækja 165,5%, eða samtals 273,8%. Landsframleiðsla ársins 2013 var u.þ.b. 1.820 milljarðar króna þannig að samkvæmt áætlun Seðlabankans hafa skuldir heimila numið 2.000 milljörðum króna og skuldir fyrirtækja 3.000 milljörðum króna, eða samtals 5.000 milljörðum króna,“ segir á vef SA.

Þar segir að skuldug íslensk heimili og fyrirtæki þurfi að standa skil á 3% hærri raunvöxtum en að jafnaði í nágrannaríkjunum og samsvari það 150 milljarða króna vaxtagreiðslum þeirra ár hvert. Þessi fjárhæð, sem nemi 8% af landsframleiðslunni, sé einn mælikvarðinn á þann kostnað sem íslensk heimili og fyrirtæki beri af íslensku krónunni.