*

þriðjudagur, 27. október 2020
Innlent 9. mars 2020 09:41

Rautt um að litast í fyrstu viðskiptum

Nasdaq OMX Iceland hefur ákveðið að breyta sveifluvörðum fyrir viðskiptarofa (e. dynamic volatilty guards) tímabundið.

Ritstjórn

Nasdaq OMX Iceland (Kauphöllin) hefur ákveðið að breyta sveifluvörðum fyrir viðskiptarofa (e. dynamic volatilty guards) tímabundið. Þröskuldurinn verður tvöfaldaður og mun það gilda fram á morgundaginn. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kauphöllinni.

Gripið er til þessara ráðstafana þar sem fyrirséð að nokkrar sveiflur verði á markaði í dag. Kerfið virkar almennt þannig að þegar verðbreyting verður ákveðið mikil þá stoppar kerfið í stutta stund, fer í uppboð og heldur síðan áfram. Með breytingunni er þröskuldurinn víkkaður til að hamla ekki eðlilegum viðskiptum. Með breytingunni fylgir Kauphöllin í fótspor annarra kauphalla á Norðurlöndunum.

Það sem af er degi er rautt um að litast á hlutabréfamarkaði. Úrvalsvísitalan hefur lækkað um rúm 3,6% í fyrstu viðskiptum. Svo nokkur dæmi séu tekin, þegar þetta er ritað, þá er Origo niður um 6,61% og Síminn, Eik, Festi, Sjóvá, Icelandair og VÍS hafa öll lækkað um á bilinu 5-6%. Hagar, Kvika, Reginn og Sýn hafa síðan lækkað um á bilinu 4-5%. Heimavellir, TM og Brim hafa staðið í stað og Eimskip er enn sem komið er eina félagið í grænu.

Í tilkynningu Kauphallarinnar segir að fylgst verði með stöðunni og mögulegt sé að sveifluverðinum verði breytt í eðlilegt horf strax í dag. Verði svo mun tilkynning um það verða send á markaðinn. Ef ekki er búist við því að hefðbundið ástand komist á á morgun.

Markaðir um veröld alla hafa tekið á sig skell í morgunsárið þegar viðskipti hófust á ný eftir helgarfrí. Ástæðan er Covid-19 veiran og áhrif vegna hennar. Stjórnvöld heimsins hafa gripið til víðtækra ráðstafana til að hefta útbreiðslu hennar og viðbúið að þær muni hafa áhrif á fyrirtæki heimsins.