Samkeppniseftirlitið hefur samþykkt kaup Regins á Klasa fasteignum. Skrifað var undir kaupsamning vegna viðskiptanna þann 21. Desember. Í tilkynningu segir að allir fyrirvarar kaupsamningsins séu nú uppfylltir og uppgjör og afhending vegna viðskiptanna muni fara fram á næstu dögum.  Samhliða kaupum verður nafni hins keypta félags breytt í RA 5 ehf.

Klasi fasteignir á fjölda eigna víða um land. Þar á meðal er húsnæðið sem hýsir ritstjórnarskrifstofur Morgunblaðsins að Hádegismóum. Auk húsnæðisins að Hádegismóum fylgja með í kaupunum hús að Garðatúni 1, Skútuvogi 2, Eyrartröð 2a, Síðumúla 28,  Síðumúla 7-9, Garðatorgi 1, Bíldshöfða 9 og Guðríðarstíg 6-8.

Samhliða þessum viðskiptum hefur stjórn Regins ákveðið að hækka hlutafé í Regin um 128,7 milljónir króna að nafnverði  á genginu 13,63 krónur á hlut.

Eigendur Klasa fasteigna eru tveir, Sigla ehf. og Stotalækur ehf.  Sigla, sem er í jafnri eigu Tómasar Kristjánssonar og Finns Reyrs Stefánssonar, mun eignast 8,56% hlutafjár í Regin við hlutafjárhækkunina og Stotalækur ehf., sem er í eigu Ingva Jónassonar, mun eignast 0,45% hlutafjár í Regin við hlutafjárhækkunina.

Í tilkynningu til Kauphallarinnar segir að Sigla hefur skuldbundið sig til þess að selja ekki þá hluti sem Sigla  fær afhenta í Regin í 9 mánuði frá afhendingardegi. Ekki gildir sölubann um hluti Stotalæks í Regin.