Stjórn Regins hefur óskað eftir skráningu félagsins í Kauphöllina í kjölfar hlutafjárútboðs sem fram fer dagana 18. og 19. júní. Fyrirtækjaráðgjöf og Markaðsviðskipti Landsbankans munu hafa umsjón með útboðinu sem opið verður fjárfestum og almenningi. Þegar er hafin kynning á Reginn meðal fjárfesta og einnig hefur félagið birt á vefsíðu sinni, reginn.is, viðamiklar upplýsingar um rekstur og afkomu.

Fram kemur í upplýsingum frá Landsbankanum að í tengslum við útboðið og skráningu Regins í Kauphöllina verði gefin út lýsing og hún birt á vefsíðu Regins og Landsbankans í síðasta lagi 11. júní næstkomandi.

Þá kemur fram í tilkynningunni að markmið Landsbankans með hlutafjárútboðinu sé annarsvegar að uppfylla skilyrði Kauphallarinnar um dreifingu hlutafjár og hinsvegar að fá að félaginu öfluga hluthafa sem geta stutt við það til framtíðar.

Framkvæmdastjóri Regins er Helgi S. Gunnarsson.

Á meðal fasteigna félagsins eru Smáralind í Kópavogi og Egilshöll í Grafarvogi.

Rúmlega 30 milljarða virði

Fasteignafélagið Reginn tók til starfa vorið 2009 og fór með eignarhald á eignum sem Landsbankinn eignaðist í kjölfar fullnustuaðgerða eða annars konar skuldaskila. Samkvæmt verðmati sem unnið var af fyrirtækjaráðgjöf Virðingar og nýverið var fjallað um, þar á meðal Viðskiptablaðið, er heildarverðmæti félagsins á bilinu 30,8 til 34,1 milljarðar króna og markaðsvirði alls hlutafjár á bilinu 15 til 18,3 milljarðar króna.