Nýsköpunarfyrirtækin Leviosa, SAReye og Snakk Kompaníið hlutu nýsköpunarverðlaun Regus á Íslandi og fá hvert um sig inneign hjá fyrirtækinu að andvirði 1.000.000 kr.

„Í tilefni af fimm ára starfsafmæli sínu í september tók Regus á Íslandi ákvörðun um að styrkja þrjú nýsköpunarfyrirtæki um eina milljón króna hvert í formi skrifstofuaðstöðu og þjónustu," segir í tilkynningu frá Regus.

Um 80 fyrirtæki sendu inn umsókn um styrki og eru þau fjölbreytt með tilliti til aldurs, starfsemi, starfsmannafjölda og fleiri þátta. Fagráð Regus fór yfir umsóknirnar og valdi. Fagráðið skipuðu þau Elvar Steinn Þorkelsson, framkvæmdastjóri Gateway Digital og fv. framkvæmdastjóri Microsoft á Íslandi, Salóme Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandic Startups og Soffía Sigurgeirsdóttir, ráðgjafi hjá KOM ráðgjöf. Allir meðlimir fagráðsins eru óháðir starfsemi Regus.

Fyrrnefnd fyrirtæki báru sigur úr býtum en að auki var þremur fyrirtækjum til viðbótar boðinn aðgangur að vinnusvæðum Regus í sex mánuði. Það eru fyrirtækin Íslensk gervigreind, Mín líðan og Proency.

Regus á Íslandi rekur fjóra skrifstofukjarna með yfir 220 skrifstofum í Ármúla, Höfðatorgi, Hafnartorgi og á Akureyri. Nú standa yfir framkvæmdir við Urðarhvarf í Kópavogi þar sem fyrirtækið mun leigja út skrifstofur.