„Skráning Reita í kauphöll hefur staðið til lengi,“ segir Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita. Að mati greiningaraðila eru taldar góðar líkur á að Reitir verði næstir til að skrá sig á aðalmarkað Kauphallar Íslands.

Ýmsar hindranir sem hafi staðið í vegi fyrir skráningu félagsins eru nú næstum úr vegi að sögn Guðjóns. Afar ólíklegt verði þó að teljast að skráning gangi eftir árið 2014, eins og til stóð í upphafi.

„Stærsta einstaka atriðið sem hefur tafið skráninguna eru gjaldeyrishöft og skoðun Seðlabankans á lánum félagsins,“ segir Guðjón. Reitir hafa staðið í stappi við Seðlabankann vegna lánasamninga félagsins við erlenda lánardrottna, en félagið hefur nú formlega lokið því máli með sátt við bankann sem felur í sér 10 milljóna króna sekt félagsins að sögn Guðjóns. Eina fyrirstaða skráningar er nú að gera upp við erlenda lánardrottna í október og ganga frá endurfjármögnun félagsins í beinu framhaldi af því. Endurfjármögnun verður í samræmi við viljayfirlýsingu Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, Lífeyrissjóðs Verslunarmanna, Gildis og eignastýringar fagfjárfesta hjá Arion banka.

Samkvæmt útreikningum Viðskiptablaðsins er líklegt að heildarvirði Reita við skráningu í Kauphöll verði á bilinu 35- 40 milljarðar króna miðað við núverandi forsendur.

Nánar er fjallað um málið í Kauphallarblaðinu sem fylgdi Viðskiptablaðinu 11. september 2014. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .