Rekstrarfélag Virðingar hf. hlaut nýlega starfsleyfi sem rekstarfélag verðbréfasjóða frá Fjármálaeftirlitinu. Þórólfur Sigurðsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri en hann hefur verið viðskiptastjóri fyrirtækja hjá Íslandsbanka frá 2009. Dóra Björg Axelsdóttir hefur verið ráðin sjóðsstjóri hjá Rekstrarfélagi Virðingar hf. Dóra starfaði á árunum 2002-2008 hjá SPRON og SPRON Verðbréfum.

"Félagið er sjálfstætt starfandi fjármálafyrirtæki að fullu í eigu Virðingar hf. Tilgangur þess er rekstur innlendra og erlendra verðbréfasjóða, fjárfestingasjóða og fagfjárfestasjóða. Félagið mun fyrst um sinn starfrækja skammtímaskuldabréfasjóð, sem samkvæmt stefnu sjóðsins mun fjárfesta í fjármálagerningum sem gefnir eru út af ríkissjóði. Félagið mun að öðru leyti sérhæfa sig í þjónustu við fagfjárfesta og stofnanafjárfesta," segir í fréttatilkynningu Rekstrarfélags Virðingar.

Stjórn Rekstrarfélags Virðingar er skipuð Halldóri Birgissyni lögmanni hjá Forum ehf., sem jafnframt er formaður stjórnar, Erni Þór Alfreðssyni viðskiptafræðingi og framkvæmdastjóra sölu- og markaðssviðs EJS, og Sigríði Láru Árnadóttur, fjármálastjóra Iceland Express.